Hoppa yfir valmynd

Vörumerkið „Icelandic” verður til

Nafnið

Tónn vörumerkisins Icelandic byggir á tengslunum við íslenska náttúru, lífsbaráttu okkar og sögu í gegnum aldirnar. Icelandic er alþjóðlega skráð vörumerki sem nýtur verndar og á sér áratuga langa sögu um hágæða íslenskar sjávarafurðir.

Sagan

Uppruna Icelandic vörumerkisins má rekja til stofnunar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna (SH, e. Icelandic Freezing Plants Corporation) árið 1942. SH var stofnuð af fulltrúum fimmtán íslenskra hraðfrystihúsa úr öllum landsfjórðungum. Tilgangur félagsins var að selja sjávarafurðir sem framleiddar voru í frystihúsum félagsmanna með því að leita eftir nýjum mörkuðum fyrir afurðirnar. Árið 1945 opnaði SH fyrsta dótturfélag sitt á erlendri grund en þar var um að ræða Coldwater Seafood Corporation í Bandaríkjum N-Ameríku.

Verkfræðingurinn Jón Gunnarsson var að öðrum ólöstuðum sá aðili sem átti einna stærsta þáttinn í stefnumótun og uppbyggingu markaðsstarfs SH og vörumerkisins Icelandic. Jón átti frumkvæði að stofnun Coldwater Seafood Corporation og var framkvæmdastjóri fyrirtækisins á árunum 1945 til 1962. Samhliða því starfi var hann aðalframkvæmdastjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna frá 1954. Í starfi sínu hjá Coldwater Seafood Corporation lagði hann mikið kapp á að auðkenna vörur félagsins sem íslenskar, „Icelandic” í stað þess að selja þær í umbúðum kaupenda í Norður Ameríku. Jón setti markið einnig hátt í gæðamálum og með árunum öðlaðist vörumerkið Icelandic fastan sess á mörkuðum í Norður Ameríku og varð þekkt sem vörumerki hágæða sjávarafurða.

(Heimildir: Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, II Með Spriklið í sporðinum, Saga SH 1942-1996, Ólafur Hannibalsson og Jón Hjaltason, bls. 175-224).