Hoppa yfir valmynd

Aukin verðmæti íslenskra sjávarafurða

Stefna Icelandic Trademark Holding ehf. (ITH) er að Icelandic vörumerkið stuðli að því að auka verðmæti og auðvelda markaðsaðgengi íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum á grundvelli gæða, sjálfbærni og uppruna. Ávinningur af rekstri ITH skal renna til þess að styrkja Icelandic vörumerkið og almenna ímyndaruppbyggingu íslensks sjávarfangs.

Með sérstökum samningum hafa nytjaleyfishafar ITH rétt á að nota Icelandic vörumerkið á markaðs­svæðum sem getið er um í nytjaleyfissamningi. Nytjaleyfishafar vinna á grundvelli viðmiðunar­reglna ITH (e. Brand Manual) og hafa aðgang að markaðsefni ITH. Vörur sem bera Icelandic vörumerkið eru íslenskar hágæðavörur með mikla sérstöðu og framleiðsla þeirra er háð lögmálum um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð. Nytjaleyfishafar ITH þurfa því að uppfylla kröfur um að öll framleiðsla þeirra og virðiskeðjan í heild sé háð lögmálum um sjálfbærni, samfélagslega ábyrgð og í sátt við náttúru og um­hverfið. Markmiðið er að vörur sem bera Icelandic vörumerkið séu þekktar sem hágæða vörur og njóti trausts hjá veitingahúsum, smásölum og neytendum um allan heim.